no image

Fylgja minningarsíðu

Sveinbjörn Sveinbjörnsson

Fylgja minningarsíðu

16. mars 1950 - 14. janúar 2020

Útför

Útför hefur farið fram.

Minningin lifir

|Elsku pabbi minn, nú ertu kominn á vit nýrra ævintýra. Ég er viss um að foreldrar þínir, Þórir bróðir þinn og Eygló systir þín hafa tekið vel á móti þér. Eins mikið og ég er viss um að þér líði vel þar sem þú ert núna, er það samt ofboðslega sárt að þú sért ekki lengur hér með okkur. Það er fyrst núna sem ég virkilega skil textann við lagið Söknuð sem Villi Vill söng svo fallega. Þú hélst einmitt svo mikið upp á þann frábæra söngvara. Þegar ég lít til baka yfir farinn veg dettur mér fyrst í hug þetta textabrot úr lagi með Mugison: Þú kenndir mér svo margt. Eitt er mér sérstaklega eftirminnilegt varðandi hugarfar þitt sem þú reyndir að kenna mér. Birtist það meðal annars í þessum frasa þínum sem þú sagðir mér fyrst þegar ég var á grunnskólaaldri: Aldrei að segja aldrei því að aldrei getur aldrei verið aldrei. Á öðru formi en með sama boðskap voru svo lífsreglurnar tvær sem þú kenndir mér. Þú sagðir að það væru bara tvær reglur í lífinu; regla nr. 1: Aldrei gefast upp! og regla nr. 2: Muna eftir reglu nr. 1. Þú kenndir mér þó ekki bara þetta magnaða lífsviðhorf heldur líka mörg góð gildi, t.d. að fólk ætti að vera gott við þá sem minna mega sín. Þú hafðir sterka réttlætiskennd og varst ákaflega barngóður. Dýrum varstu einnig mjög góður og man ég hve vel þú talaðir um hestinn þinn hann Jarp og hundinn Lappa og hvernig þessi tvö dýr náðu ákaflega vel saman. Annað sem ekki er hægt að minnast ekki á er ást þín á ýmsu amerísku; svo sem country-músík, bílategundunum GMC og Chevrolet ásamt ýmsu sem tengist kúrekamenningunni. Að sumu leyti fannst mér að þú hefðir ef til vill fæðst í vitlausu landi, að þú hefðir í raun átt að fæðast í einhverju kúrekaríkinu í Norður-Ameríku. Þú hafðir þó sérstaklega mikið dálæti á að ferðast um Ísland og þá einna helst hálendið. Það var þinn heimavöllur og man ég hversu vel þér leið alltaf þegar þú varst kominn upp á fjöllin. Þær voru nú nokkrar ferðirnar sem við fórum saman upp á hálendið, m.a. yfir Kjöl, Sprengisand, í Veiðivötn, í Herðubreiðarlindir og Öskju, fjallabaksleiðirnar og upp í Kverkfjöll. Þú þekktir hálendið og fjöllin eins og handarbakið á þér og mundir nöfnin á mörgum fjöllum, sérstaklega á æskuslóðum þínum nálægt Heklu. Þú varst líka alveg frábær kennari þegar kom að því að kenna manni handtökin og virkni hluta í bílvélum svo ég nefni dæmi. Ég byrjaði minn atvinnuferil hjá þér og þú kenndir mér meðal annars rafsuðu. Eitt það fyrsta sem við gerðum saman á verkstæðinu var að smíða skiptikassagrindurnar sem þú hannaðir sjálfur á 10. áratug síðustu aldar. Við smíðuðum þær svo saman og er ég ákaflega stoltur að hafa fengið að taka þátt í því með þér. Þú varst alveg ótrúlegur þegar kom að viðgerðum og að smíða eitthvað úr járni. Það var í raun og veru eins og að þú hefðir eitthvert æðra skilningarvit á því sviði. Þú byrjaðir náttúrlega mjög ungur, einungis örfárra ára gamall, að fara með föður þínum út í bílskúr og áttir þú eftir að lifa og hrærast í svoleiðis bransa allt þitt líf. Þú varst svo magnaður sögumaður og sagðir þú okkur margar skemmtilegar sögur í gegnum tíðina. Mér fannst alltaf svo magnað hvað þú mundir skýrt ýmsa atburði lífs þíns og þó að maður fengi stundum að heyra einhverjar af þessum sögum oftar en einu sinni leiddist manni það aldrei vegna þess að það var svo gaman að hlusta á þig segja þær. Þú hafðir líka gaman af góðum kveðskap og læt ég hér því fylgja eitt kvæði eftir frænda þinn:

Bæta við leslista

Eitt er það sem aldrei gleymist, aldrei það er minning þín

Þann 14. janúar 2020 var höggvið stórt skarð í hjörtu okkar fjölskyldunnar þegar þú féllst frá elsku pabbi minn eftir erfið og mikil veikindi. En það er svo margs að minnast og er ég óendanlega þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman í gegnum tíðina. Ég man lítið eftir uppvaxtarárunum mínum á Lyngási enda bara 5 ára þegar við fluttum norður á Dalvík þann 21. des 1979, fórst þú með mömmu, þrjú börn og búslóð á vörubíl svona rétt fyrir jólahátíðina og við eignuðumst nýtt heimili að Sólgörðum á Dalvík. Ég minnist þess að þegar á Dalvík var komið þá fékkst þú næga vinnu og varst því litið heima við og það var bara rétt svo að maður sæi þig við morgunverðarborðið. Svo til að bæta aðeins meiri vinnu á þig þá fórstu í það að byggja í Dalbrautinni og þangað fluttum við 1981 í mjög svo fallegt hús. Þaðan eru margar ljúfar minningar en ég mun aldrei gleyma því hvernig aðfangadagskvöldin voru þar. Þegar búið var að borða jólamatinn og opna pakka þá var allt rusl hreinsað í burtu og að því loknu var kveikt í arninum og það fannst mér vera algerlega toppurinn á aðfangadagskvöldi.

Bæta við leslista